Spennandi vetur framundan

Frá yfirþjálfara 

Veturinn er komin og byrjar vel hjá Sörla félögum. Það er margt búið að gerast síðan starfið hófst í september. Bókleg kennsla hófst í september byrjun í knapamerki 1, 3, 4 og 5. Í framhaldinu hófst verkleg kennsla sem stendur enn yfir. Mikil aðsókn var á námskeiðin en 15 nemendur eru skráðir í knapamerki 1 sem er mesta skráning sem hefur verið síðustu ár.

Félagshesthús Sörla hófs líka í byrjun september en þar eru fullt af hressum og kátum krökkum, ýmist með sín eigin hross eða lánshross og starfið gengur þar ljómandi vel.

Í lok september opnaði nýja og stórglæsilega reiðhöllin okkar eftir miklar eftirvæntingar. Nú er hestamannafélagið Sörli eina félagið á landinu með 2 reiðhallir samtengdar og því hægt að nota aðra höllina sem upphitunarhöll og hina sem keppnishöll. Við Sörlafélagar erum öll ótrúlega heppin að Hafnarfjarðarbær skuli líta á hestamennskuna sem íþrótt og veiti okkur slíkt mannvirki til æfinga. Það er því óhætt að segja að Hafnarfjarðarbær hafi verið að stíga stórt skref í þeim málum. Gólfið í reiðhöllinni er talið eitt af því besta sem hægt er að fá og því mjög mikilvægt að knapar gangi vel um og hreinsi bæði úr hófum og eftir hesta sína þegar þeir skíta.

Einnig í lok september byrjuðu reiðmennskuæfingar yngri flokka, það byrjaði á léttum æfingum án hests og skemmtilegri samveru og byrjuðu verklegir reiðtímar með hesta um miðjan október. Í lok október byrjuðu svo reiðmennsku æfingar fullorðinna en fylltist strax á námskeiðið og bætt var við fleiri hópum. Breyting var gerð frá í fyrra en nú eru einungis 2 knapar í hóp í stað 3 og bætt var við opnum tímum í stað bóklegra tíma og sýnikennsla líkt og hefur verið í yngri flokkum og gengið vel.

Í október var haldið hið geysivinsæla frumtamninganámskeið og gekk það svakalega vel, full var á námskeiðið af ungum sem öldnum sem vildu temja sína hesta sjálf og læra réttu vinnubrögðin.

Reiðmaður 1 var tekinn aftur inn hjá félaginu og byrjaði kennsla þar í október og stendur fram í apríl. Einnig fylltist strax á það námskeið um leið og biðlisti myndaðist. Það er því augljóst að Sörlafélagar eru þyrstir í að læra meira og bæta sig. í dag erum um 100 félagar í kennslu 1-2 í viku hjá Sörla.

Í febrúar 2024 innleiddi Sörli fyrst félaga á Íslandi afreksstefnu Sörla – yngri flokka eftir fyrirmynd ÍSÍ. Hestamannafélagið Sörli er enn eina félagið sem er með skipulagt starf fyrir afrekshóp á hverju ári og í vetur er 3 skiptið sem skipulagt starf fer fram. Afrekstefnan inniheldur námskerfið frá grasrótinni og uppí afreksknapa í íþróttinni.

Afrekstefnan leiðir iðkendur í gegnum allt námskeiðahald félagsins, allt frá grunni upp í afreksmiðað keppnisnám og skiptist í Reiðmennskuæfingar (öllum opnar), hæfileikamótun (að uppfylltum skilyrðum um keppnisþátttöku) og afrekshóp (að uppfylltum skilyrðum um árangur í keppni á stærri mótum). Í afrekshópi Sörla veturinn 2025-2026 eru 11 flottir knapar og er starfið nú þegar hafið en síðastliðnu helgi fór yfirþjálfari með hópinn í hópefli í Reykjavík escape. Komandi helgi mun hópurinn svo eyða helginni í knapaþjálfun hjá Bergrúnu og er mikil tilhlökkun fyrir því.

Það er gaman að sjá hversu mikill áhugi er hjá félagsmönnum að sækja sér þekkingu og kennslu með hesta sína. Maður er aldrei fulllærður sem reiðmaður og því mikilvægt að sækja sér þekkingu og fleiri verkfæri til þjálfunar þegar maður getur. Í vetur munum við gera okkar besta í að bjóða uppá fjölbreytt helgarnámskeið til að auka þekkingu og færni hjá okkar frábæra fólki og hafa nú þegar verið bókaðir flottir kennarar sem enginn vill missa af.  En í lok nóvember mun reynsluboltinn og Sörlafélaginn hann Atli Guðmunds halda helgarnámskeið á vegum félagsins og verður auglýsing sett í loftið á næstu dögum.

Eftir áramót mun Bergrún Ingólfsdóttir koma og halda knapaþjálfunar námskeið en í fyrra fylltist á 2 námskeið með henni og var mikil ánægja með. Afrekshópur Sörla fór einnig á námskeið hjá Bergrúnu í fyrra og voru svo ánægð að þau óskuðu eftir að hún kæmi 2x í ár, slík var ánægjan. En ásamt Bergrúnu koma Jóhanna Margrét Snorradóttir og Þórarinn Eymundsson og halda námskeið fyrir almenning ásamt Šárka og Bart – Einstakt teymi í klassískri reiðlist og meðferð hesta ef næg skráning næst.

Í fyrra samræmdust fræðslunefndir hestamannafélaganna á höfuðborgasvæðinu um sýnikennslur og fræðsluviðburði og gera það aftur í ár. Fyrsti viðburðurinn sem haldin verður er sýnikennsla í hestafimleikum, viðburðurinn ætti að henda ungum sem öldnum enda er jafnvægi mjög mikilvægt á hestbaki hvort sem maður er barn eða fullorðinn.

Hestafimleikar eru frábær og skemmtilegt viðbót við hestamennskuna á Íslandi. Þeir efla styrk, janfvægi, tilfinningu fyrir hestinum og samvinnu hjá knapanum og auka fjölbreytileikan í æskulýðsstarfinu hjá hestamannafélögum.
Viðburðurinn er haldin sameiginlega af hestamannafélögunum á höfuðborgarsvæðinu (Sprettur, Sörli, Hörður og Fákur). Síðustu ár hafa félögin verið að halda keimlík fræðsluerindi með fáum þátttakendum sem hafa jafnvel endað á því að standa ekki undir kostnaði. Með þessum hætti geta félögin unnið saman, haldið stærri viðburði og hjálpast að við að halda fræðsluna. Fleiri viðburðir verða auglýstir síðar og hvet ég alla til að fylgjast vel með og sækja viðburði svo hægt sé að auka þekkingu og fræðslu hestafólks á höfuðborgasvæðinu.

Að því sögðu hlakkar mig mikið til komandi tímabils og að sjá Sörlafélaga dafna og njóta sín í hestamennskunni. Ef einhverjar spurningar vakna eða þið viljið heyra í mér þá er alltaf hægt að ná í mig í síma eða senda mer tölvupóst á astakara@sorli.is

Ég læt fylgja með nokkrar myndir úr nýliðinni sveitaferð sem farin var með yngri kynslóðina en þar heimsóttu við 3 sveitabæi (Sunnuhvoll, Ás 2 og Sumarliðabæ) og fengu krakkarnir að sjá inní heim tamningafólks/reiðkennara á mismunandi stöðum. Í ferðina fóru 26 krakkar og formaður æskulýðsnefndar, yfirþjálfari Sörla og 2 foreldrar.

Bestu kveðjur,
Ásta Kara
yfirþjálfari Sörla