SÖRLI 80 ÁRA

Merk tímamót í sögu félagsins 

Afmælismerkið okkar var hannað af þeim feðgum Hilmari Sigurðssyni Lávarði og Degi Hilmarssyni

Formannspistill

Þann 7. febrúar 1944, fyrir 80 árum, var Hestamannafélagið Sörli stofnað. Það er því vel við hæfi að óska félagsmönnum öllum til hamingju með afmælisárið.

Í dag vill svo til að í fyrsta sinn í sögu félagsins, eru félagar í Sörla komnir yfir eitt þúsund talsins. Félagið okkar hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum og hefur innra starf þess margfaldast. Þótt ótrúlegt megi virðast er enn aðeins einn starfsmaður í föstu starfi hjá félaginu og enn reiðum við okkur mikið á okkar frábæru sjálfboðaliða. Blikur eru hins vegar á lofti og ljóst að mjög fljótlega verður Sörli að fjölga starfsólki sínu.

En hvað hefur afmælisbarnið fyrir stafni þessa dagana. Hæst ber sennilega að nefna byggingu nýrrar og glæsilegrar reiðhallar, sem mun stórbæta alla aðstöðu á félagsvæðinu. Þreföldun á reiðgólfi, stórbætt félagsaðstaða, veitingasalur þar sem við getum haldið stóra viðburði fyrir félagsmenn. Tækjageymsla sem okkur sárvantar og auðvitað frábær aðstaða til áhorfs á íþróttina bæði inni og út. Er meðal þess sem ný reiðhöll mun færa okkur. Er stjórn félagsins þakklát Hafnarfjarðarbæ fyrir stuðning sinn við byggingu reiðhallarinnar og fyrir að deila framtíðarsýn félagsins um mikilvægi góðrar aðstöðu.

Félagið á og rekur í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ sitt eigið Félagshús sem tekur 33 hesta og veturinn 2023-2024 er það þegar orðið fullt af ungu fólki og leigjendum sem vantar aðstöðu fyrir hesta sína.

Reiðmennskuæfingar barna og fullorðinna eru í fullum gangi og reiðkennararnir okkar hafa nóg að gera við að mennta okkar fólk. Á fyrsta stjórnarfundi félagsins 2024 var einnig samþykkt að félagið mun hefja afreksstarf fyrir unga knapa, sem hefjast mun strax í vetur. Fer vel á því að félagið haldi áfram að vera í fararbroddi í menntun og kennslu á 80 ára afmælisárinu.

Vetrarstarf nefnda er að hefjast og metnaðarfull dagskrá, stútfull af skemmtilegum viðburðum framundan í vetur.

Þorrabablót Sörla verður haldið þann 27. janúar næstomandi og verður sérstaklega veglegt. Við munum bjóða til okkar stórum hóp gesta til að hefja afmælisárið með okkur og hvetjum félagsmenn til að fjölmenna á þorrablóti félagsins.  Þá er líka tækifæri til að skála fyrir afmælisbarninu. Hitta vinina úr hverfinu, deila gleði og sorgum og borða góðan mat og muna svo að það er ekki bara spurning hvað félagið þitt getur gert fyrir þig heldur hvað þú getur gert fyrir félagið þitt.

Afmæliskveðja frá formanni
Atli Már Ingólfsson