Mjög mikilvægt er að við sýnum tillitsemi

Uppland Hafnarfjarðar 

Enn og aftur er kvartað undan því að knapar séu að fara um gönguleiðir. Núna er viðkvæmur tími og frost að fara úr jörðu og slóðar mjög viðkvæmir.

Fullt er af slóðum og stígum sem við teljum okkur mega fara og förum, en við megum alls ekki fara um á meðan frost er að fara úr jörðu. Ef við förum um á meðan jörð er blaut kemur rof í gróðurþekjuna.

Við tölum alltaf um að við höfum alltaf mátt fara um alla þessa slóða og flestir þeirra séu til vegna þess að hestamenn hafi í raun búið þá til og jafnvel kindur hér á árum áður. Þetta er jú rétt en ásókn er mikil í upplandið af öðrum útivistahópum og við þurfum því að deila upplandinu með fleirum en áður var.

Oft kemur upp að göngumenn halda að við megum ekki fara Stórhöfðastíginn eða Selvogsgötuna. Það er ekki rétt, Selvogsgatan er gata á milli Hafnarfjarðar og Selvogs í Árnssýslu. Hún er gömul þjóðleið og var farin þegar bændur í Selvogi sóttu kaupstað í Hafnarfirði og vermenn fóru á verstað. Þegar brennisteinsvinna var í Brennisteinsfjöllum um miðja 19. öld var brennisteinn fluttur eftir leiðinni til Hafnarfjarðar og fluttur þaðan í skip. Allir þessir flutningar hafa eflaust verið á hestum eða hestvögnum.

Samt sem áður er það alveg kýrskírt að göngustígarnir sem eru búnir til af skógræktinni á landsvæðinu þeirra um og við Hvaleyrarvatn er bannað að fara um á hrossum. Í þá stíga hefur skógræktin annað hvort sett trjákurl eða göngustígaleirblöndu.

Einnig er bannað að fara um skógræktar reitina sem einstaklingar og félagasamtök hafa tekið í fóstur til að gróðursetja í.

Virðum þetta, því við eigum öll að geta nýtt upplandið til útivista ef við tökum tillit hvers til annars.

Förum ekki um moldargötur eða slóða á meðan frost er að fara úr jörðu og höldum okkur á reiðleiðum.