Íslandsmót barna og unglinga 2025

Á Hraunhamarsvelli 

Íslandsmót barna og unglinga fór fram dagana 17.–20. júlí á Hraunhamarsvellinum í Hafnarfirði, á félagssvæði Sörla. Mótið var hið glæsilegasta í alla staði og var bæði keppt í hefðbundnum íþróttagreinum en að auki var boðið upp á gæðingakeppni. Knapar víðsvegar af landinu sóttu mótið heim í fjörðinn og sýndu listir sínar ásamt heimafólkinu okkar úr Sörla, sem höfðu æft af miklum krafti allan veturinn.

Frábær árangur keppendur okkar úr Sörla

Ásthildur Viktoría Sigurvinsdóttir kom með nýjan hest, Baldur frá Margrétarhofi, í gæðingaflokki unglinga. Þau stóðu sig prýðilega og tryggðu sér sæti í B-úrslitum með einkunnina 8,44 eftir forkeppni, þar sem þau höfnuðu í 10. sæti. Í B-úrslitum lækkaði einkunnin lítillega niður í 8,40 og enduðu þau í 12. sæti.

Ásthildur og Baldur

Bjarndís Rut Ragnarsdóttir tók þátt í þremur greinum og  stóð sig með prýði en vakti sérstaklega athygli í gæðingaflokki unglinga með hest sinn Meistara frá Hafnarfirði. Þau tryggðu sér sæti í B-úrslitum með einkunina 8,40 og 13. sæti af 35 keppendum eftir forkeppni. Í B-úrslitum bættu þau sig og enduðu í 11. sæti með 8,45.

Bjarndís Rut og Meistari

Erla Rán Róbertsdóttir og Fjalar frá Litla-Garði halda áfram að bæta sig sem par. Þau áttu frábæra sýningu í Tölti T1 unglinga og náðu 6. sæti í forkeppni með 6,77 í einkunn. Með þá einkunn komust þau í B-úrslit, þar sem þau enduðu í 9.–10. sæti með 6,61.

Erla keppti einnig í Tölt T4 með Gletting frá Skipaskaga. Þau voru í 9. sæti eftir forkeppni með einkunnina 6,50. Þau komu, sáu og sigruðu B-úrslit með 6,83 og tryggðu sér þar með sæti í A-úrslitum. Í A-úrslitum héldu þau uppteknum hætti og náðu 3. sæti með sömu einkunn, 6,83. Glæsilegur árangur hjá þessu kraftmikla dúó-i.

Erla Rán og Fjalar
Erla Rán, Glettingur og Ásbjörn Helgi

Ögn H. Kristín Guðmundsdóttir keppti einbeitt í gæðingaskeiði PP1 unglinga með hryssuna Dimmu frá Syðri-Reykjum 3. Eftir fyrsta sprett voru þær í 13. sæti en bættu sig í seinni sprettinum þar sem þær náðu 6. sæti með 6,92 í einkunn. Lokastaðan var 10. sæti með 4,46 í samanlagða einkunn.

Una Björt og Heljar

Una Björt Valgarðsdóttir og Heljar frá Fákshólum kepptu í gæðingatölti unglinga.  Þau tryggðu sér sæti í B-úrslitum og 10. sæti af 30 keppendum, í forkeppni með einkunnina 8,31. Í B-úrslitum héldu þau sínu sæti en náðu að hækka einkunn sína í 8,38.

Það er ótrúlega ánægjulegt að sjá hversu sterkt unga Sörlafólkið okkar kom inn á þessu glæsilega Íslandsmóti. Árangurinn ber vott um mikla vinnu, elju og ástríðu fyrir íþróttinni. Það er einstaklega gaman að fylgjast með þeim tefla fram hestum sínum og uppskera árangur erfiðisins.

Áfram Sörli!