Birtingardagsetning: 
þriðjudaginn, 17. apríl 2018 - 9:09

Í kjölfar óhappa sem urðu hjá Íshestum um páskana var haldinn fundur með Stjórn Sörla og stjórendum Íshesta. Í framhaldi þessara fundar vilja Íshestar koma eftirfarandi yfirlýsingu á framfæri:

Til Íshesta koma viðskiptavinir frá öllum heimsins hornum til að njóta þess að komast á bak íslenska hestinum í hinu fallega og tilkomumikla umhverfi hér í Hafnarfirði.  Það gefur að skilja að viðskiptavinir okkar eru misvanir og við gerum það sem í okkar valdi stendur til að auka öryggi og bæta upplifun.  En því miður er ekki er hægt að koma í veg fyrir öll slys og urðum við fyrir röð óhappa í kringum páskana þar sem nokkrir gesta okkar duttu af baki.  Sem betur fer slasaðist enginn alvarlega en þess ber að geta að við höfum þá vinnureglu að hringja á sjúkrabíl óski viðkomandi viðskiptavinur eftir því og í mörgum tilvikum fer sjúkrabíllinn tómur heim.

Öryggi viðskiptavina, starfsmanna og annarra í umhverfi okkar er lykilatriði í starfsemi Íshesta. Blessunarlega heyrir það til algerra undantekninga að viðskiptavinir detti af baki en við tökum öll slík atvik mjög alvarlega og reynum að koma í veg fyrir þau með öllum ráðum.  Við vinnum samkvæmt skýrum verklagsreglum og viðbragðsáætlunum sem við förum reglulega yfir með starfsfólki okkar.  Hjá okkur starfa nú 12 fararstjórar sem allir eru reyndir knapar og er meðalaldur þeirra 27 ár. Allir okkar leiðsögumenn eru með gilt skyndihjálparskírteini og heldur Rauði krossin sérstaklega námsskeið fyrir okkar starfsfólk árlega með tilliti til slysahættu í okkar umhverfi.  

Það heyrir sem betur fer til algerra undantekninga að hestar á okkar vegum fælist í ferðum en hestar eru þó í eðli sínu flóttadýr og því fylgir útreiðum alltaf ákveðin slysahætta, hvort sem um ræðir reynda eða óreynda knapa.  Í því skyni að draga úr slíkri áhættu skiptum við hópum upp eftir getu knapa og veljum hesta sem við teljum henta getu hvers og eins.  Tekið skal fram að hin eiginlega uppskipting hópanna á sér stað við fyrstu áningu og því kann að virðast sem hóparnir séu stærri í upphafi ferðar en þeir eru í raun.

Óhöppin um páskana má fyrst og fremst rekja til utanaðkomandi þátta, einkum umferðar mótorhjóla og bíla sem var ekið hratt og með hávaða hjá hópum okkar. Umferð hvers kyns ökutækja, hjólandi fólks og gangandi hefur aukist á útreiðarsvæðinu hér í Hafnarfirði á undanförnum árum á meðan á sama tíma hefur þrengt að hvað reiðleiðir varðar. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að vinna með Hafnarfjarðarbæ að því að auka með öllum ráðum öryggi á svæðinu til að koma í veg fyrir óhöpp.  Reiðveganefnd Sörla hefur undanfarin ár unnið gríðargott starf í að bæta reiðvegi og -leiðir og nauðsynleg okkur öllum að sú mikilvæga vinna haldi áfram.

Okkur hjá Íshestum er mikið í mun að eiga gott samstarf við félagsmenn Sörla á svæðinu sem nú þegar er talsvert og viljum við koma fram þökkum til þeirra sem sýna okkur aðgát á reiðleiðum.

Við hlustum á allar ábendingar um það sem betur má fara í starfsemi okkar og hvetjum ykkur til að koma slíkum ábendingum til okkar. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að til þess að samvinnan gangi vel þurfa báðir aðilar að leggja sig fram og taka tillit til hvors annars.