Birtingardagsetning: 
þriðjudaginn, 10. september 2019 - 16:26

Á vordögum var okkur hjá Hestamannafélaginu Sörla úthlutað landsvæði frá Hafnarfjarðarbæ á milli Bleiksteinshálsar og Hlíðarþúfna. Þetta er stórt og mikið svæði sem á eftir að nýtast okkar félagsmönnum vel í framtíðinni. Einnig fékk félagið til umráða túnið við hliðina á 400 hringnum í Hlíðarþúfum. Það hefur verið mikið hagsmunamál fyrir okkur félagsmenn að fá úthlutað svona svæði því það á eftir að gjörbreyta aðstöðu félagsmanna og þá sérstaklega keppnisfólks og atvinnumanna á svæðinu.

Á túninu við hliðina á 400 hringnum í Hlíðarþúfum er búið að taka niður gömlu girðingarnar og girða upp á nýtt. Einnig er búið að gera nýtt aðgengi í hólfið, neðan við 400 hringinn, við hliðina á reiðveginum út úr hverfinu. Það var húsfélagið í Hlíðarþúfum sem lagði til fjármuni til kaupa á nýju girðingaefni en notað var það fé sem ávannst af útleigu hólfanna fyrir neðan Hlíðarþúfur í sumar.

Á stóra svæðinu við Bleiksteinsháls er lúpínubreiða sem við þurfum að vinna niður því nauðsynlegt er að græða upp landið svo það verði nothæft sem viðrunarhólf. Félagið fjárfesti nýverið í ruddasláttuvél fyrir söfnunarfé sem kom annars vegar út úr ,,Nóvemberfestinu" (fjáröfluninni okkar s.l. haust)  og hins vegar fyrir peninga sem safnast hafa á karlakvöldum Graðhestamannafélags karlpunga í Hestamannafélaginu Sörla.

Kristján Jónsson er búin að slá c.a. 1/3 af svæðinu en hann telur að þetta geti verið einir 12 hektarar, þetta er mikið verk og vinnst hægt þar sem að landið er grýtt og í töluverðum halla. Búið er að losa töluvert af skít á svæðinu sem bera þarf á þar sem búið er að slá. Í síðustu viku keypti Krýsuvíkurnefndin, fyrir félagið, lítinn tunnudreifara til að nota í það verk. Við erum að vonast til að sláttuvélin og skítadreifarinn eigi eftir að gera okkur kleift að græða upp svæðið á stuttum tíma.

Þar sem að við erum bara rétt að byrja á þessari miklu vinnu við uppgræðsluna munum við á næsta aðalfundi félagsins stofna nýja nefnd sem sér um þessi viðrunarhólf. Viðrunarhólfanefndin kemur til með að aðstoða við uppgræðsluna á svæðinu og sjá um hólfin í framtíðinni. Fyrsta verk nefndarinnar verður að safna saman mannskap til að aðstoða við girðingavinnu næsta vor en þá þarf að girða úthringinn. Einnig þarf nefndin, í samvinnu við stjórn félagsins, að útbúa starfslýsingu nefndarinnar og móta úthlutunarreglur.

 

Krafturinn og dugnaðurinn í sjálfboðaliðunum okkar hefur gert okkur kleift að fjárfesta í sláttuvélinni, skítadreifaranum og nýju girðingaefni. - Lengi lifi sjálfboðaliðinn í röðum okkar félagsmanna.

 

Áfram Sörli - Áfram uppbygging

Sörli Hestamannafélag, Íþrótt, Lífstíll
Sörli Hestamannafélag, Íþrótt, Lífstíll
Sörli Hestamannafélag, Íþrótt, Lífstíll