Hlutverk ferðanefndar er að halda utan um félagsreiðtúra félagsins og hina árlegu sumarferð Sörla.  Fyrsti félagsreiðtúr hvers vetrar er á gamlársdag og síðan er a.m.k einn  reiðtúr í mánuði fram í júní.  Í byrjun vetrar eru reiðtúrarnir stuttir en lengjast svo eftir því sem líður á vorið. Þá er  m.a. riðið inn í Heiðmörk,  í kringum Helgafell og jafnvel til Krýsuvíkur ef aðstæður leyfa. 

Flestir Sörlafélagar þekkja þessa föstu reiðtúra og vilja helst ekki missa af þeim. Fjöldinn í reiðtúrunum getur verið frá 15- 20 manns upp í á annað hundrað manns eins og í skírdagsreiðinni. Á skírdag bjóðum við nágranna hestafélögum til okkar og ríðum við á móti þeim og endum svo í kaffihlaðborði á Sörlastöðum.  Gríðarlegur fjöldi tekur þátt í þessu ár hvert. 

Allir reiðtúrar eru auglýstir inn á heimasíðu Sörla og inn á fésbókinni. Starfsárinu lýkur svo með sumarferð Sörla sem er oftast í kringum miðjan júní og er yfirleitt 5 daga ferð, aldurstakmarkið í þessar ferðir er 18 ára.  Öll skipulagning og undirbúningur sumarferðarinnar er í höndum ferðanefndar sem gerir sér far um að finna góðar, skemmtilegar og fjölbreyttar reiðleiðir. Oftast eru hestaferðirnar á suður-eða vesturlandi því allt kapp er lagt á að skipuleggja ferðirnar þannig að kostnaður sé í lágmarki svo að sem flestir eigi þess kost að koma með. Má segja að fátt sé eins ánægjulegt og að vera á baki á vel þjálfuðum hesti úti í náttúrunni í góðum félagsskap.

Netfang nefndarinnar: ferdanefnd@sorli.is

Ferðanefndin starfsárið 2021-2022

 • Jón Harðarson formaður, gsm 690 3339
 • Kristín Auður Elíasdóttir
 • Heiðrún Arna 

Starfslýsing fyrir Ferðanefnd samþykkt 2019

 1.  Ferðanefnd skal skipuð a.m.k. þremur félagsmönnum og er formaður er kosinn á aðalfundi og á fyrsta fundi skal nefndin kjósa sér ritara og gjaldkera.
 2.  Nefndin skal sjá um ferðalög sem farin eru í nafni félagsins, gamlársreið, þorrareið, reiðtúra fyrsta laugardag í hverjum mánuði, dagsferð á sumardaginn fyrsta, grilltúr, Helgafellstúr og sumarferð félagsins
 3.  Nefndin skal jafnan hafa einhvern fróðleik á takteinum um það svæði þar sem farið er, t.d. varðandi byggingar og náttúru.
 4.  Æskilegt er að saga ferðalaga sé skráð í máli og myndum.
 5.  Nefndarmenn skulu ávallt nota netfang nefndarinnar í tölvupóstsamskiptum við aðra um málefni nefndarinnar.
 6.  Í upphafi starfsárs eða eftir aðalfund gerir nefndin rekstraráætlun fyrir starfsárið og sendir stjórn félagsins til samþykktar.
 7.  Gjaldkeri í samráði við framkvæmdastjóra skal fara með fjármál nefndarinnar í samræmi við lög og góða reikningsskilavenju. Löglegir reikningar skulu fylgja öllum greiðslum. 
 8.  Nefndin ber ábyrgð á auglýsingum á viðburðum og öðru tengdu efni varðandi nefndarstarf.  Nefndin skal skila fréttum og öðru efni til framkvæmdastjóra fyrir Sörlavefinn.
 9.  Uppgjör nefndarinnar og endurgreiðslur til einstakra aðila skulu fara fram eigi síðar en mánuð eftir viðburð og afhendast framkvæmdastjóra Sörla. Með uppgjöri og endurgreiðslum skulu fylgja reikningar fyrir öllum útlögðum kostnaði. 
 10.  Nefndin skal hafa skilað endanlegu reikningshaldi til framkvæmdastjóra félagsins ekki seinna en einum mánuði fyrir aðalfund.
 11.  Nefndin skal hafa samráð við aðrar nefndir/deildir eftir atvikum.
 12.  Fundargerð skal nefndin rita um hvern fund sem síðan skal lesin á næsta fundi.
 13.  Skila skal skýrslu nefndarinnar fyrir starfsárið, viku fyrir auglýstan aðalfund.
 
Að öðru leiti fer starfslýsing nefndarinnar eftir lögum félagsins.
Merking: