STJÓRNARFUNDUR Í SÖRLA 7. JANÚAR 2015

Fundur settur kl 20:10. Mættir voru Þórunn Ansnes, Páll Ólafsson, Eggert Hjartarsson, Hlynur Árnason, Brynja Björk Garðarsdóttir, Ásgeir Margeirsson, Sigurður Ævarsson og Thelma Víglundsdóttir.

  1. Starfsmannamál. Enn vantar umsjónarmann á Sörlastaði og er stefnt að því að auglýsa starfið á næstu dögum. Framtíðaráætlanir gera ráð fyrir að reyna að semja um starfsmann sem hluta af rekstrarsamningi við Hafnarfjarðarbæ.
  2. Styrkir v/Norðurlandamóts. Sörli styrkir keppendur vegna ferðakostnaðar á norðurlandamótið í Herning. Hafnarfjarðarbær leggur fram 20.000 kr. á hvern keppanda. Lögð er fram sú tillaga að Sörli bæti við 30.000 kr. og mun því hver keppandi fá styrk að fjárhæð 50.000 kr.
  3. Gólfið í reiðhöllinni. Efnið í reiðhöllinni hefur verið til vandræða eins og flestir félagsmenn kannast við og mikið ryk hefur verið í höllinni. Upp kom sú hugmynd að leggja nokkra cm af furuspæni ofan á núverandi efni til þess að rykbinda gólfið. Ljóst er að hvaða leið sem valin yrði, krefst viðhalds og umhirðu. Stjórnin mun kynna sér málið betur og skoða sambærileg gólf í reiðhöllum áður en ákvörðun verður tekin.
  4. Auglýsingamál. Nauðsynlegt er að fara yfir auglýsingasamninga og endurnýja þá sem þarf að endurnýja.
  5. Fasteigna- og brunabótamat. Fasteigna- og brunabótamat Sörla hefur verið uppfært og er það mikið fagnaðarefni.
  6. Slys á Sörlasvæðinu. Nú fyrir stuttu varð það sorglega atvik að meri fótbrotnaði í gerði á Sörlasvæðinu. Eigandi hrossins átti í mestu vandræðum með að útvega dýralækni til að aflífa það og varð það úr að um fjórar klukkustundir liðu áður en tókst að fá dýralækni á svæðið. Hár reikningur fylgdi heimsókninni. Hægt er að hafa samband við lögreglu og hún kemur og aflífar hross. Ekki er víst að margir hestamenn viti af þessum möguleika. Lagt til að upplýst verði um ákveðin verkferil sem hægt sé að fylgja, komi til þess að hross slasist alvarlega.
  7. Stjórnarmál. Eggert Hjartarsson óskar eftir því að hætta sem ritari stjórnarinnar. Ásgeir Margeirsson býður sig fram í embættið og það er samþykkt samhljóða. Nauðsynlegt er að gera breytingu á lögum félagsins sem lúta að því að ritari skuli sjá um allar bréfaskriftir í nafni félagsins þar sem slíkt fellur undir starfslýsingu rekstrarstjóra. Þessu verður vísað til laganefndar.
  8. Hlíðarþúfur. Athugasemd var borin upp á aðalfundi varðandi lóðaleigusamninga á Hlíðarþúfusvæðinu. Málið var kannað og samningurinn var upphaflega til 15 ára og framlengist sjálfkrafa um 5 ár kjósi hvorki Sörli né Hafnarfjarðarbær að slíta samningnum. Misjafnt er milli húsa hversu langur tími er eftir af samningnum. Lagt er til að formlega verði reynt að bæta samninginn og samræma samningstímann í hverfinu.
  9. Þorrablót. Það er mikill hugur í skemmtinefndinni og langar nefndinni að fylla húsið á þorrablótinu. Það er pláss fyrir fleiri sæti í salnum en það vantar fleiri stóla. Lagt er til að skemmtinefndinn kaupi fleiri stóla og noti til þess fjármagn nefndarinnar.  Skemmtinefnd er fjáröflunarnefnd og því er þetta því upplagt verkefni fyrir stjórn hennar.

 

Fleira var ekki rætt. Fundi slitið kl 22:30.

Birtingardagsetning: 
fimmtudaginn, 8. janúar 2015 - 15:07
Viðburðardagsetning: 
miðvikudaginn, 7. janúar 2015 - 20:00
Frá: 
Vettvangur: